<$BlogRSDURL$>
Ekki bara sæt...

laugardagur, febrúar 14, 2004

 
Fjarlægðin gerir fjöllin blá og laaaaaaangt til Húsavíkur
Afsakið þetta skriftarleysi, ég hef frá nægu að segja en er bara búin að vera lasin... Enda ekkert skrýtið eftir ferð dauðans!
Nú er bara spurningin... Komst ég á Kópasker eftir allt saman?
Ég skil mjög vel ef þið nennið ekki að lesa þetta allt... en þetta er samt alveg ótrúlega spennandi saga!


Já, þetta byrjaði allt með því að ég hafði pantað mér far með flugvél frá Rvk til Ak kl 13:30... Þegar ég kom svo á flugvöllinn kom í ljós að e-r ruglingur hafði átt sér stað, svo ég átti ekki að fljúga fyrr en kl 16:00... Fannst þetta nú helv. skítt en lét mig hafa það. Laufey greyið sem hafði keyrt mig út á flugvöll þurfti þá að ná í mig aftur en hún fékk að hlaupa inn í Smáralind í staðinn meðan ég beið í bílnum með Lárusi Ármanni. Svo fengum við okkur þjóðarrétt USA- McDonalds og keyrðum svo aftur út á flugvöll.
Á Akureyri tók Sigga Magga á móti mér og við fórum á Glerártorg að versla og svona... Svo fórum við heim í Ystu-Vík og ég fékk að hitta Löru og Roman Darra, Stip og svo auðvitað hann pabba minn.

Örn og Svanfríður, bróðir Þrastar og konan hans, ákváðu svo að leggja af stað frá Akureyri til Kópaskers kl 20:30. Við fórum úr Ystu-Vík kl 21:00 í þessu fína veðri en vissum að það ætti eftir að versna en bara ekki svona mikið... Við Ystafell ákváðum við að snúa við því varla sást á milli stika og engin glóra í því að halda áfram svona, enda búin að vera klukkutíma þangað (ég veit ekki hvað það tekur langan tíma venjulega, en það er amk innan við hálftíma), þrátt fyrir gott slyggni framan af. Þegar við vorum nýbúin að snúa við mættum við snjóruðningstæki sem sagði að Víkurskarðið væri ófært vegna veðurs, við ættum bara að fylgja honum, hann væri á leið til Húsavíkur. Jæja, þá ákváðum við að snúa aftur við, enda skárri kostur að gista á Húsavík en í bíl uppi á Víkurskarði... Þetta gekk svona líka rosalega vel... Örn gat bara fylgt appelsínugulum blikkljósum bílsins en sá, að ég held, mjög sjaldan stikur, hvað þá veginn!

Jæja... Loks vorum við alveg að komast að stóru beygjunni í Kinninni...eða hvað... Jú, þarna var hún, lengsta beygja sem ég hef farið í, viss um að hún var margir hringir! Jæja, svo var það langa-brúin sem ég er alltaf skíthrædd við, hvað þá í svona veðri... hún kom eftir alveg örugglega hálftíma... venjulega fer maður í beygjun-vúúúmm, og svo brúna bara strax á eftir! Þetta var alveg ótrúlegt veður! En já þetta gekk svona í nokkurn tíma, þangað til við komum að Tjörn sem er að ég held við beygjuna að Ýdölum. Þá þurfti stóra tækið á undan okkur að snúa við til að ná í e-r fífl sem voru á ferðinni í þessu veðri, skil bara ekkert í fólki að vera að ana svona út!!! Jæja, fram úr okkur fór þá jeppi og keyrðum við á eftir honum að Laxamýri, en þá gafst sá bíll upp. Kom þá í ljós að þarna var lögreglumaður á ferð á einkabíl og tókum við hann upp í.

Þegar við vorum svo ALVEG að komast til þessarar blessuðu víkur sem kennd er við hús, nánast tiltekið rétt sunnan við afleggjarann að Kaldbak þar sem Benedikt bekkjarbróðir minn býr, fórum við útaf... og það var sko fjör! Ég varð soltið skelkuð... enda hallaði bíllinn meira en honum var hollt að mínu mati... Jæja, hringt var í lögregluna og kom hún eftir drjúga stund og spilaði okkur inn á veginn (mér var farið að líða eins og aðalpersónu í Braki og brestum eftir Elías Snæland Jónsson. Kommon! Þið munið eftir henni!). Jæja loksins komumst við á Húsavík! Þegar við komumst loks inn á Fosshótel Húsavík var klukkan orðin 02:00! Við vorum sem sagt 5 tíma frá Ystu-vík til Húsavíkur- leið sem tekur í góðu færi 1 klst MAX að fara...
Jæja við fengum herbergi og ákváðum að skoða færið daginn eftir.

Veðrið var að ganga niður þegar ég var vakin morguninn eftir (minnir samt að það hafi verið milli eitt og tvö) en ekki var ljóst hvort Tjörnesið,sem var samkvæmt fréttum kolófært, yrði mokað, því það var ekki hinn heilagi Mokstursdagur (Nú hata ég opinberlega ákveðna Mokstursdaga! Hvernig væri að moka bara þegar það er ófært?!?! Ekki moka þeir þegar það er autt er það? Þótt það sé mokstursdagur! Djöf. niðurskurður alls staðar!) Aftur á móti var það vegagerðinni þóknanlegt að moka til Akureyrar, svo því var rumpað af! Við fórum í heimsókn til vinahjóna Svanfríðar og Ödda og þar fengum við reiðarslagið- Tjörnesið yrði ekkert mokað þennan dag- Var ég alveg búin að sætta mig við þetta og farin að pæla hvað væri í Sjallanum um kvöldið...

Þá hringdi Þröstur og sagði e-a brjálæðinga ætla að reyna að komast yfir Nesið á jeppum- (svona er Þorrablót á Kóðaskeri vinsæll viðburður!) svo við fundum út hverjir þeir væru og hvort við mættum fljóta með- Við vorum nefnilega á jeppa- (Mitsubishi pallbíl með húsi). Það var lítið mál og kom þá í ljós að hinir jepparnir 2 voru það sem ég myndi kalla jepplinga... a.m.k. voru þeir pínulitlir og litu ekki út fyrir að komast yfir lækjarsprænu, hvað þá risa-snjóskafla... klukkan 16:45 lögðum við því af stað og áttum greiða leið allt þar til við komum að skafli einum... höfðum við ekki enn hætt okkur í hann þegar Risajeppa bar að garði... Renndi hann í skaflinn og sat þar fastur. Hann var mokaður upp og gat þá troðið slóð fyrir okkur aumingjana á eftir sér... svona gekk þetta yfir alla skaflana, nema að Risajeppinn festi sig ekkert en það gerðum við hinir... Hann dró okkur svo í gegnum verstu skaflana. Þetta var alveg voða ævintýralegt e-ð, sífellt bættust fleiri bílar í lestina og undir lokin voru komnir 9 bílar og allir að fara á þorrablót á Kópaskeri! Hver segir svo að það sé ekki gaman! Þið trúið því örugglega ekki hvað ég varð glöð að komast loks niður í Kelduhverfið! Jæja það var fólksbílafæri alla leiðina á Skerið og þangað komum við kl 19:45! korteri áður en blótið átti að byrja... En vegna þess hvað við vorum mikilvæg öll saman (enda örugglega 40 manns...) þá var því frestað um hálftíma svo ég kom ekki nema nokkrum mínútum of seint! ;) Já þannig fór það!

Blótið var alveg ótrúlega skemmtilegt! Ég skildi alveg helling af skemmtiatriðum og ef ég skildi þau ekki, hló ég bara enn hærra! hehehe
Vil ég þakka Lilju Guðmundsdóttur vinkonu minni fyrir að brjótast líka frá Akureyri og vera með mér þarna- án hennar hefði þetta ekki verið jafn skemmtilegt! Þeir sem ekki fá þakkir eru: Vinir mínir sem gátu ekki komið vegna þess að þeir nenntu ekki.
Á sunnudaginn vaknaði ég svona líka rosalega spræk- ekkert þunn enda hafði móðir mín spælt egg og brauð þegar heim var komið um nóttina. Þegar líða tók á daginn ákvað ég af góðmennsku minni að fara út að ganga með Skugga, hund nágrannans sem var í pössun hjá mömmu og Þresti (hundurinn var s.s. í pössun ekki nágranninn). Hann er svartur Labrador og mikinn lífskraft og gleði í honum að finna... Hélt þetta yrði ekki mikið mál... Annað kom í ljós! Hann dró mig bara um allt! Ég var bara heppin að geta hlaupið með, annars hefði ég verið með pönnukökunef og mar á hnjám... Varð þunn við þetta allt saman og fór að sofa...

Ferðin til Ak gekk alveg ljómandi, ég gisti í Ystu-Vík og fór svo suður með flugi á mánudagskvöld.

Ég fór svo í vinnu á þriðjudaginn en þegar líða fór á daginn fann ég að ég var ekki alveg eins hress og skemmtileg og venjulega... Fór heim og lagði mig... þegar ég vaknaði svo aftur var ég komin með hita á hálsbólgu... Hálsbólgan var nú ekki neitt en hitinn var verri... 39-40 stig en verkjatöflur eru allra meina bót... Hef ekki horft svona mikið á sjónvarp síðan ég var veik í sumar! Ég mætti sem sagt ekkert í vinnu í síðustu viku nema þennan eina þriðjudag! Góður starfskraftur það! Er eiginlega búin að jafna mig núna... pínu slöpp en samt að ég held ekki með hita. En þessi leti vika fékk mig samt til þess að fara fljótlega að setjast í helgan stein... eða leggjast á helga steina eins og ég vil segja það...múhahaha

Í gær kom samt Tinna og við horfðum á LOTR Fellowship of the ring, hún hafði nefnilega aldrei séð hana... ég verð nú að bæta úr því svo hún fékk að sjá lengri útgáfuna! :) Og skemmti sér bara vel!
Jóna fór til Akureyrar um helgina svo við Óli ætluðum að hafa pizzuogvídjókvöld í gær. Þegar hann var að ná í pizzuna vaknaði Álfheiður og þegar ég fór inn í herbergi var hún búinn að æla út sig alla út. Greyið stelpan var komin með ælupest og er ennþá ælandi ef hún kemur e-u niður. Hræðilegt að sjá hana svona lasna - venjulega er hún nefnilega voða hress þegar hún er veik en ekki núna, nú vill hún bara kúra. Vonandi jafnar hún sig fljótt!

Jæja hetjurnar mínar! Nú er ég hætt og farin að fá mér pizzuafganga síðan í gær!!!
Megavika Domino´s lengi lifi!!! Húrra, Húrra, Húrra!!!

p.s. Gleðilegan helv, andsk. Valentínusardag! (Hver þarf á slíku að halda? huhh!)
p.s.s. Ef þið endilega viljið, megið þið senda mér blóm (og súkkulaði)! Munið að hafa kort með þar sem stendur:

Gleðinlegan Valentínusardag elsku Fanney mín.
Þú ert alltaf svo sæt!
Þinn leynilegi aðdáandi.
xxx

Hef aldrei fengið svona... humm... það hlýtur að vera af því að ég er alltaf að flytja... fólk veit ekki hvar ég bý hverju sinni! :)

Comments-[ comments.]

Powered by Blogger