<$BlogRSDURL$>
Ekki bara sæt...

sunnudagur, febrúar 29, 2004

 
Myndir segja meira en 1.000 orð!
Í dag ákvað ég að halda hvíldardaginn heilagan... Vaknaði ekki fyrr en 20 mín í 2 og fór þá á fætur og borðaði matinn sem ég hafði keypt á djamminu kvöldið áður og engan veginn haft lyst á... Það skemmtilegasta var að ég nennti ekki að setja í mig linsurnar svo ég var blind í örugglega klukkutíma eftir að ég vaknaði :) Svakastuð! Verð að fara að kaupa mér gleraugu... Svo lagðist ég bara í sófann með fæturnar upp í loft og horfði á dagskrá fimmtudagskvöldsins á skjá 1 sem ég var svo ótrúlega snjöll að taka upp! Lá þar þangað til Donni, pabbi Óla og Maggý kona hans komu í heimsókn, þá neyddist ég nú til að setjast upp ;o)
Ótrúlega gott að eiga svona daga samt, maður hvílist svo mikið! Ég var sem betur fer ekkert þunn... fór nefnilega í bekkjarboð sem ég hélt að þýddi bara 2-3 bjóra og spjall... í staðinn lenti ég niðrí bæ, eftir að hafa tæmt ískápinn hjá Valla og Aðalbjörgu af áfengi... nei nei það var nú alls ekki svo slæmt! (Þau áttu svo mikið...)
Bærinn var bara eins og venjulega... ekkert spes.

En bekkjar"boðið", sem breyttist fljótt í "partý" (þ.e. ef skilgreiningin á boði er ekki mikið áfengi, og partý miklu meira áfengi en í boði), var alveg mjög skemmtilegt! Þarna var skemmtilegi hluti bekkjarins kominn saman, Valli og Adda, Hildur og Jói kallinn hennar, Una og Hannes kallinn hennar og svo Ég og maðurinn minn tilvonandi, hann Mangi (sem reyndar enginn annar virðist sjá, en þeir um það...). Reyndar eru Jói og Hannes í raun ekki hluti af bekknum en þeir voru samt mjög svo velkomnir, enda hluti af Hildi og Unu og mjög skemmtilegir strákar. Eiki kíkti líka aðeins á okkur en stoppaði samt frekar stutt enda enn að jafna sig eftir föstudagskvöldið...
Ásdís kom svo seinna um kvöldið, eiginlega mjög seint, því hún hafði verið grímupartýi hjá kórnum, en hún bara varð að sýna okkur búninginn sinn... Sóley, Sóley búninginn sem við notuðum í fyrrnefndu árshátíðaratriði, sem þið getið séð HÉR. Hún var alveg glæsileg í honum skal ég segja ykkur!
Skemmtilegi hlutinn segi ég... og já... ég held ég standi bara við það... a.m.k. höfðu hinir ekki fyrir því að koma og eiga þess vegna ekki skilið að teljast til betri hlutans... (Sumir höfðu reyndar ágætis afsökun... en ég vil bara halda þessu svona...)
Ég held að mest allur tíminn hafi farið í það að skoða myndir úr MA í tölvunni hjá Valla og Öddu (ég nenni ekki að skrifa Aðalbjörg... ;), engin smá nostalgía það! Ó, hvað ég sakna Menntaskólaáranna...

Comments-[ comments.]

föstudagur, febrúar 27, 2004

 
Leikhúsrottan!
Á miðvikudaginn fór ég í leikhús! Laufey systir, sem vinnur sem sminka í Þjóðleikhúsinu milli þess sem hún eignast ótrúlega krúttleg og feit börn (reyndar bara komið eitt núna en maður vonast samt alltaf eftir fleirum...), átti nebbla einn miða á lokaæfingu á Þetta er allt að koma og gat svo reddað öðrum á hálfvirði... maður lætur ekki svona boð framhjá sér fara... nema allir vinir mínir...Enginn nennti með mér ( fólk komst ekki vegna þess að það var að: Vinna/læra/hafði ekki pössun/ekki þessi leikhússtýpa) svo ég endaði á því að draga Óla mág með mér :) Við skemmtum okkur alveg konunglega! Mjög skemmtilegt leikrit og sviðsetningin, lýsingin og allt það dót var alveg ótrúlega töff! Innihaldið var líka mjög fínt en inn á milli voru samt pínu dauðir kaflar...

En ég kalla mig leikhúsrottu því ég var að uppgötva að ég er búin að fara 5 sinnum í leikhús á síðasta árinu... og hef aldrei þurft að borga fyrr en núna hálfan miða... Svona er að þekkja rétta fólkið... af þessum sýningum, sem eru: Chicago (MA), Grease (VMA), Pabbastrákur (Þjóðleikhúsið), Lína Langsokkur (Borgarleikhúsið) og svo loks Þetta er allt að koma, fannst mér nú MA-sýningin á Chicago langflottust... Það var líka alveg ótrúlega flott sýning! Ætla vonandi að fara á Chicago hér fyrir sunnan (Þarf samt að borga sem er nú fúlt þegar maður er svona góðu vanur...), en kvíði því eiginlega að sú sýning sé ekki jafn flott og hjá LMA... Annars er bara komin helgi.. svo ég er bara í góðu glensi! Jæja... skrifa kannski meira á eftir ef ég nenni!

Endilega tékkið á blogginu hennar Vilborgar Gellu Ólafsdóttur Þórðarsonar sem ég var að bæta við í linkasafnið mitt... hún er mjög góður penni!

Hæ ég er komin aftur... ég veit ég er að svindla og bæta við gamla bloggið en málið er að nú er kominn nýr dagur (kl er orðin hálf 1) en ekki hjá mér samt því ég er ekki farin að sofa! (Alveg að missa mig yfir því að fá að sofa út á morgun!)
Fór til Tinnu og Arnórs í heimsókn nú í kvöld... horfðum á American Wedding og höfðum það huggó... Svo fór ég snemma heim því frænkur mínar þær Lella, Kikka og Gréta + Geiri maðurinn hennar voru í heimsókn og maður má nú ekki missa af slíku! Það var alveg svaka-gaman að hitta þau :) (Athugið samt að ég skrifaði nöfnin þeirra ekki í réttri aldursröð... þið vitið, elsta fyrst og yngsta síðust því ég er á móti slíkri mismunun for a reason u know...)

Annars er ég búin að vera að pæla í einu undanfarið... Vitiði að það eru eiginlega aldrei gerðir lagatextar með karlmannsnöfnum sem aðalatriði... alltaf kvenmannsnöfn... T.d. Sóley, Sóley (sem minnir mann óneitanlega á árshátíð áhugamanna um félagsfræði í þriðja bekk), Nína, Álfheiður Björk, Ó, María mig langar heim (sem ég hélt alltaf að væri um einhverja Ómaríu þegar ég var lítil...), Ave Maria (hehe), Klara, Klara, Anna í Hlíð, Rabbabara-Rúna, Bella símamær, Mandy (með Westlife að ég held) og svo ótrúlega margir fleiri!
Jú ég veit alveg að það hafa verið gerðir textar með karlmannsnöfnum... eins og t.d. Siggi var úti, Guttavísur, og Gvendur á Eyrinni... En það er nú ekki sama ástarvælið og hitt!

Endilega látið mig vita ef þið munið eftir ástarvælstextum með karlmannsnöfnum!
Ykkar Fanney sem á engan texta um sig...
p.s. Morfís keppni á morgun, laugardag! MA vs. Versló kl 16:00 í Blá sal Verslunarskólans!! Ætla að mæta, Viljiði koma með?

Comments-[ comments.]

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

 
Keila er mín íþrótt...
Dagurinn í dag er búinn að vera mjög stuttur hjá mér... Ég vaknaði og fór í vinnuna, kom heim, borðaði, lagðist upp í rúm kl korter í 3 og vaknaði afutr kl hálf 7... svo bráðum þarf ég að fara að sofa aftur... Get það samt pottþétt ekki, svo kannski maður skelli sér bara út í búð að kaupa nammi... Málið er að ég ætlaði sko ekkert að sofna... ætlaði bara að leggjast aðeins og hlýja mér... En svona fór nú það!

Annars fór ég á djammið um helgina... Fór í partý til Tinnu og svo með Ásdísi niðrí bæ... það rann af mér um leið og ég kom út því það var svo kalt... Fórum hvergi inn svo telja megi, og enduðum niðrá Mama's Tacos sem er einmitt staðurinn okkar Ásdísar! Ég var bara búin að gleyma að mér finnst ekkert rosalega gaman að djamma í Rvk nema vera með mjög mörgu fólki og inni á e-m ákveðnum stað... ekki svona rölt á milli því maður þekkir engan! Skil ekki hvað ég var að kvarta yfir djamminu á Akureyri... þá fannst manni allt eins... alltaf sama fólkið sem maður þekkti... en nú finnst mér allt eins hér... alltaf sama fólkið sem maður þekkir ekki... En svona er lífið! Grasið er ekki alltaf grænna hinu megin!
Hér eftir fer ég ekki á djammið nema á MA-Djamm- og bekkjarpartý.
Og talandi um bekkinn minn (og þá er ég að tala um 4.GH úr MA)!!! Hann ætlaði að hittast í keilu í gær... og við mættum 4... Hinum verður sko ekki boðið í næsta partý ef ég má ráða!! Ég sem hélt þetta væri svo yndislegur bekkur... svo samrýmdur og blablalbla... HUHH!!!

En það var samt alveg brilliant í keilu! Fyrst mættu Aðalbjörg og Valli og við fórum og fengum okkur hambó og aðra hollustu í veitingasalnum í keiluhöllinni en Ásdís mætti svolítið síðar og missti meira að segja af 2 leikjum af 3. Þar sem ég hafði bara einu sinni farið í keilu áður, og það var fyrir 7 árum ef ég reikna rétt, þá bjóst ég nú við því að tapa feitt... en ónei! ég vann reyndar aldrei, en ég var samt 2x í öðru sæti! Vorum reyndar með svona grindur svo kúlan myndi ekki fara ofan í þessa ömurlegu rennu... Það er sko miklu skemmtilegra!!! Þá skorar maður a.m.k. e-ð! Ég meina, algjör óþarfi að þykjast vera e-ð rosalega góður, maður kemur frá Akureyri og þarna liggur eini munurinn á Ak og Rvk... Keila! Eftir keilu fórum við í nokkur spil þarna t.d. fótboltaspil, sem er einmitt í miklu uppáhaldi hjá mér! Ég vil endilega þakka þessum 3 fyrir frábært kvöld!

Í gærdag var ég svo að rölta á Laugaveginum og sá þá að auglýst var 15-30% afsláttur í skartgripabúð... Þar sem ég á mjög fallegt gullhálsmen með hvítri perlu, hefur mig alltaf langað í hring i stíl... svo ég skellti mér þarna inn og fjárfesti í einum... hann var svo ódýr... Maður verður víst að bjarga sér þegar maður á ekki kall! Þetta var líka eiginlega jólagjöf frá pabba því hann gaf mér pening og sagði mér að kaupa mér e-ð skart fyrir... Ekki það að mig vanti ekki úr sem er nú kannski skynsamlegra skart... en... ég hefði nú hvort eð er keypt mér úr!
Svo nú á ég nýjan hring en get samt ráðið mér alveg sjálf! Múhahaha!
P.s. Enn er laust sæti við hlið mér á árshátíð Pennans...

Comments-[ comments.]

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

 
Það er að koma helgi!!!
Já seisei!
Í dag gerði ég svolítið nýtt... ég kom heim úr vinnunni og fór út aftur en ekki að sofa! Þetta er alveg ótrúlegt! Fór í IKEA, Bónus og Rúmfatalagerinn með Jónu og Álfheiði. Það er alveg ótrúlega spennandi að labba um í IKEA... ætla sko að verða svona IKEA-frík... kaupa allt mitt þar! Nei kannski ekki... en ég fann samt mjög fallegan sófa sem mig langar pínu í... kostaði ekki nema 80. þús... hahaha, glætan að það verði fyrsti sófinn minn! Endaði með því að kaupa mér peru í lampann minn... (sá hana svo auðvitað miklu (tæpl. 10 kr.) ódýrari í Bónus 10 mín síðar...) Álfheiður greyið var e-ð úrill enda búin að vera lasin lengi en við píndum hana þó áfram... Svo þegar við vorum í Rúmfatalagernum gerði ég þau mistök að rétta að henni Bangsímon bangsa og hún neitaði að sleppa honum aftur, svo ég neyddist til að kaupa hann... sem betur fer kostaði hann ekki nema 99 kr. og ég varð besta frænka í heimi fyrir vikið!

Í dag gerðist það svo í vinnunni að okkur var send auglýsing fyrír árshátíð Pennans sem verður haldin 13. mars... Kostar bara smotterí og e-r "frábær hljómsveit" leikur fyrir dansi... (Finnst e-n veginn að ef þetta væri í alvörunni FRÁBÆR hljómsveit væri hún nafngreind, en kannski er ég bara fordómafull). A.m.k. er góður matur að mér sýnist og skemmtiatriði og alles! Þegar ég var að skrá mig (því ég læt svona skemmtun ekki framhjá mér fara!) þurfti ég að setja frekar sorglegt NEI við því hvort ég vildi hafa maka með, svo nú er ég farin að leita mér að deiti!

Annars er ekkert að frétta nema það að ég ætla að djamma um helgina... Sem er nú eiginlega stór-frétt... ég man ekki lengur hvenær ég djammaði síðast í Rvk svo það er kominn tími til. Vonandi verður gott veður...
Jæja, nú fer ég að halda áfram að gera ekki neitt!
Skjáumst seinna! Múhahaha

P.s. Ég hef ekkert frétt um vændi á Kárahnjúkum! (Vildi bara koma því að...)

Comments-[ comments.]

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

 
Mig langar til að sofa...
Hvað er máið? Ég fer rosalega seint að sofa, en samt get ég ekki sofnað... hugsa alltaf bara: "ó nei, ef ég sofna ákkúrat núna get ég bara sofið í 4 tíma..." svo aftur, "ó nei, ef ég sofna ákkúrat núna get ég bara sofið í 3 og hálfan tíma..." og enn aftur... "ó nei, ef ég sofna ákkúrat núna get ég bara sofið í 3 tíma..." og svona styttist þetta alltaf... óþolandi að eyða kvöldinu í það að vera andvaka... held það sé það leiðinlegasta sem ég geri! Þvílík sóun á tíma!
Og það er ekki eins og ég sé að hugsa e-ð merkilegt... nei ég hugsa sko bara um það hvað ég get sofið lítið...
Núna er klukkan rúmlega sjö og ég er í morgun-kaffitíma í vinnunni, alveg að leka niður... best að fara að leggja sig eftir vinnu... en þá get ég örugglega ekki sofnað í kvöld... Æ þetta er alveg farið í hring!
Hvað þýðir annars að dreyma alveg fullt af handklæðum á snúru?? Vitiði það?
Comments-[ comments.]

mánudagur, febrúar 16, 2004

 
Til hamingju með afmælið mamma mín!!!
Í dag er sá merkisdagur 16. febrúar og í dag er mamma mín fimmtug! Hún er reyndar núna í Santa Barbara hjá Sollu systur og fjölskyldu... svo ég kyssi hana varla í dag... en vonandi hefur hún það gott, líklega því það er miklu hlýrra þar en hér og þið vitið hvað það er gott að vera heitt... Nú styttist í mína utanlandsferð, þó eru 11. vikur í það enn... Annars er ekkert að frétta, er að fara út að borða á morgun til að fagna öðru afmæli, Tinna vinkona er nefnilega 22 á morgun... mér sem finnst svo stutt síðan hún varð 18... Jæja, ég ætla ekkert að skrifa mikið í dag, enda hef ég ekkert að segja...
Jú Snorri Guðvarðs, pabbi Sverris, á líka afmæli í dag, 51 árs! Til hamingju með það Snorri minn! Ég er reyndar búin að hringja í hann og óska honum til hamingju en aldrei er góð vísa of oft kveðin!
Knús og kossar til allra sem ég þekki ;)

Comments-[ comments.]

sunnudagur, febrúar 15, 2004

 
Einkamáladálkur Fanneyjar
Góðan Daginn!!
Vaknaði heldur seint í dag... kl hálf 3... en ég fór samt svo seint að sofa að ég fyrirgaf sjálfri mér! Álfheiður er nefnilega ennþá veik og þar sem mamman er að skemmta sér á Akureyri þarf ég að hálpa til að þrífa eftir hana og svoleiðis... Ég er samt alveg ótrúlega sterk! Kúgast ekkert við það að þrífa ælu... ég held ég megi þakka þeim vinum mínum sem eru algjörir hænuhausar og gjarnir á að æla þegar of mikið af áfengi er innbyrgt þennan ótrúlega háa ógeðis-þröskuld! Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott segi ég nú bara! Eiginlega vissi ég ekki sjálf hvað ég er sterk- kom mér á óvart! Hef annars mest lítið gert í dag... enda bara búin að vaka í 4 tíma... Var að vonast til þess að e-r myndi hringja í mig og bjóða mér á kaffihús með sér eða e-ð... nenni samt ekki að hafa frumkvæðið, það eru allir svo uppteknir alltaf- í skóla og svona... Hver veit samt- Maður er manns gaman er mitt mottó... eða þannig sko...

Er samt farin að halda að ég sé leiðinleg... Kannski ég hætti bara að skrifa hérna og loki mig bara inni eftir vinnu... A.m.k. hefur enginn hringt síðan á föstudaginn... fyrir utan eina sem vantaði greiða... Úff... hvað segir þetta mér?!?! Jæja, nú gengur þetta ekki lengur! Ég fer bara á einkamál.is og auglýsi eftir vinum!!! Eða bara hér!

Ung stúlka, fædd '83, ekkert átakanlega leiðinleg (held ég), auglýsir eftir fólki til að hanga með eftir vinnu og á kvöldin (fyrir 22 samt því ég þarf að fara snemma að sofa...) Áhugamál: Sætir strákar, diskótek, tónlist, nammi ofl.
Þarf að vera fjárhagslega sjálfstæður einstaklingur (ég nenni ekki að hlusta á tuð um að þú hafir ekki efni á því að fara í bíó eða á barinn og svona!)

Hafið samband! þið getið bara hringt eða skrifað comment og ég mun hafa upp á ykkur...

Jæja, best að fara að hringja í e-a af vinkonum mínum sem ég held að fari ekki að gráta þegar hún sér nafnið mitt á símanum sínum...

p.s. Jóna og Ólöf... þið eruð alveg seif enda í útlöndum!Comments-[ comments.]

laugardagur, febrúar 14, 2004

 
Fjarlægðin gerir fjöllin blá og laaaaaaangt til Húsavíkur
Afsakið þetta skriftarleysi, ég hef frá nægu að segja en er bara búin að vera lasin... Enda ekkert skrýtið eftir ferð dauðans!
Nú er bara spurningin... Komst ég á Kópasker eftir allt saman?
Ég skil mjög vel ef þið nennið ekki að lesa þetta allt... en þetta er samt alveg ótrúlega spennandi saga!


Já, þetta byrjaði allt með því að ég hafði pantað mér far með flugvél frá Rvk til Ak kl 13:30... Þegar ég kom svo á flugvöllinn kom í ljós að e-r ruglingur hafði átt sér stað, svo ég átti ekki að fljúga fyrr en kl 16:00... Fannst þetta nú helv. skítt en lét mig hafa það. Laufey greyið sem hafði keyrt mig út á flugvöll þurfti þá að ná í mig aftur en hún fékk að hlaupa inn í Smáralind í staðinn meðan ég beið í bílnum með Lárusi Ármanni. Svo fengum við okkur þjóðarrétt USA- McDonalds og keyrðum svo aftur út á flugvöll.
Á Akureyri tók Sigga Magga á móti mér og við fórum á Glerártorg að versla og svona... Svo fórum við heim í Ystu-Vík og ég fékk að hitta Löru og Roman Darra, Stip og svo auðvitað hann pabba minn.

Örn og Svanfríður, bróðir Þrastar og konan hans, ákváðu svo að leggja af stað frá Akureyri til Kópaskers kl 20:30. Við fórum úr Ystu-Vík kl 21:00 í þessu fína veðri en vissum að það ætti eftir að versna en bara ekki svona mikið... Við Ystafell ákváðum við að snúa við því varla sást á milli stika og engin glóra í því að halda áfram svona, enda búin að vera klukkutíma þangað (ég veit ekki hvað það tekur langan tíma venjulega, en það er amk innan við hálftíma), þrátt fyrir gott slyggni framan af. Þegar við vorum nýbúin að snúa við mættum við snjóruðningstæki sem sagði að Víkurskarðið væri ófært vegna veðurs, við ættum bara að fylgja honum, hann væri á leið til Húsavíkur. Jæja, þá ákváðum við að snúa aftur við, enda skárri kostur að gista á Húsavík en í bíl uppi á Víkurskarði... Þetta gekk svona líka rosalega vel... Örn gat bara fylgt appelsínugulum blikkljósum bílsins en sá, að ég held, mjög sjaldan stikur, hvað þá veginn!

Jæja... Loks vorum við alveg að komast að stóru beygjunni í Kinninni...eða hvað... Jú, þarna var hún, lengsta beygja sem ég hef farið í, viss um að hún var margir hringir! Jæja, svo var það langa-brúin sem ég er alltaf skíthrædd við, hvað þá í svona veðri... hún kom eftir alveg örugglega hálftíma... venjulega fer maður í beygjun-vúúúmm, og svo brúna bara strax á eftir! Þetta var alveg ótrúlegt veður! En já þetta gekk svona í nokkurn tíma, þangað til við komum að Tjörn sem er að ég held við beygjuna að Ýdölum. Þá þurfti stóra tækið á undan okkur að snúa við til að ná í e-r fífl sem voru á ferðinni í þessu veðri, skil bara ekkert í fólki að vera að ana svona út!!! Jæja, fram úr okkur fór þá jeppi og keyrðum við á eftir honum að Laxamýri, en þá gafst sá bíll upp. Kom þá í ljós að þarna var lögreglumaður á ferð á einkabíl og tókum við hann upp í.

Þegar við vorum svo ALVEG að komast til þessarar blessuðu víkur sem kennd er við hús, nánast tiltekið rétt sunnan við afleggjarann að Kaldbak þar sem Benedikt bekkjarbróðir minn býr, fórum við útaf... og það var sko fjör! Ég varð soltið skelkuð... enda hallaði bíllinn meira en honum var hollt að mínu mati... Jæja, hringt var í lögregluna og kom hún eftir drjúga stund og spilaði okkur inn á veginn (mér var farið að líða eins og aðalpersónu í Braki og brestum eftir Elías Snæland Jónsson. Kommon! Þið munið eftir henni!). Jæja loksins komumst við á Húsavík! Þegar við komumst loks inn á Fosshótel Húsavík var klukkan orðin 02:00! Við vorum sem sagt 5 tíma frá Ystu-vík til Húsavíkur- leið sem tekur í góðu færi 1 klst MAX að fara...
Jæja við fengum herbergi og ákváðum að skoða færið daginn eftir.

Veðrið var að ganga niður þegar ég var vakin morguninn eftir (minnir samt að það hafi verið milli eitt og tvö) en ekki var ljóst hvort Tjörnesið,sem var samkvæmt fréttum kolófært, yrði mokað, því það var ekki hinn heilagi Mokstursdagur (Nú hata ég opinberlega ákveðna Mokstursdaga! Hvernig væri að moka bara þegar það er ófært?!?! Ekki moka þeir þegar það er autt er það? Þótt það sé mokstursdagur! Djöf. niðurskurður alls staðar!) Aftur á móti var það vegagerðinni þóknanlegt að moka til Akureyrar, svo því var rumpað af! Við fórum í heimsókn til vinahjóna Svanfríðar og Ödda og þar fengum við reiðarslagið- Tjörnesið yrði ekkert mokað þennan dag- Var ég alveg búin að sætta mig við þetta og farin að pæla hvað væri í Sjallanum um kvöldið...

Þá hringdi Þröstur og sagði e-a brjálæðinga ætla að reyna að komast yfir Nesið á jeppum- (svona er Þorrablót á Kóðaskeri vinsæll viðburður!) svo við fundum út hverjir þeir væru og hvort við mættum fljóta með- Við vorum nefnilega á jeppa- (Mitsubishi pallbíl með húsi). Það var lítið mál og kom þá í ljós að hinir jepparnir 2 voru það sem ég myndi kalla jepplinga... a.m.k. voru þeir pínulitlir og litu ekki út fyrir að komast yfir lækjarsprænu, hvað þá risa-snjóskafla... klukkan 16:45 lögðum við því af stað og áttum greiða leið allt þar til við komum að skafli einum... höfðum við ekki enn hætt okkur í hann þegar Risajeppa bar að garði... Renndi hann í skaflinn og sat þar fastur. Hann var mokaður upp og gat þá troðið slóð fyrir okkur aumingjana á eftir sér... svona gekk þetta yfir alla skaflana, nema að Risajeppinn festi sig ekkert en það gerðum við hinir... Hann dró okkur svo í gegnum verstu skaflana. Þetta var alveg voða ævintýralegt e-ð, sífellt bættust fleiri bílar í lestina og undir lokin voru komnir 9 bílar og allir að fara á þorrablót á Kópaskeri! Hver segir svo að það sé ekki gaman! Þið trúið því örugglega ekki hvað ég varð glöð að komast loks niður í Kelduhverfið! Jæja það var fólksbílafæri alla leiðina á Skerið og þangað komum við kl 19:45! korteri áður en blótið átti að byrja... En vegna þess hvað við vorum mikilvæg öll saman (enda örugglega 40 manns...) þá var því frestað um hálftíma svo ég kom ekki nema nokkrum mínútum of seint! ;) Já þannig fór það!

Blótið var alveg ótrúlega skemmtilegt! Ég skildi alveg helling af skemmtiatriðum og ef ég skildi þau ekki, hló ég bara enn hærra! hehehe
Vil ég þakka Lilju Guðmundsdóttur vinkonu minni fyrir að brjótast líka frá Akureyri og vera með mér þarna- án hennar hefði þetta ekki verið jafn skemmtilegt! Þeir sem ekki fá þakkir eru: Vinir mínir sem gátu ekki komið vegna þess að þeir nenntu ekki.
Á sunnudaginn vaknaði ég svona líka rosalega spræk- ekkert þunn enda hafði móðir mín spælt egg og brauð þegar heim var komið um nóttina. Þegar líða tók á daginn ákvað ég af góðmennsku minni að fara út að ganga með Skugga, hund nágrannans sem var í pössun hjá mömmu og Þresti (hundurinn var s.s. í pössun ekki nágranninn). Hann er svartur Labrador og mikinn lífskraft og gleði í honum að finna... Hélt þetta yrði ekki mikið mál... Annað kom í ljós! Hann dró mig bara um allt! Ég var bara heppin að geta hlaupið með, annars hefði ég verið með pönnukökunef og mar á hnjám... Varð þunn við þetta allt saman og fór að sofa...

Ferðin til Ak gekk alveg ljómandi, ég gisti í Ystu-Vík og fór svo suður með flugi á mánudagskvöld.

Ég fór svo í vinnu á þriðjudaginn en þegar líða fór á daginn fann ég að ég var ekki alveg eins hress og skemmtileg og venjulega... Fór heim og lagði mig... þegar ég vaknaði svo aftur var ég komin með hita á hálsbólgu... Hálsbólgan var nú ekki neitt en hitinn var verri... 39-40 stig en verkjatöflur eru allra meina bót... Hef ekki horft svona mikið á sjónvarp síðan ég var veik í sumar! Ég mætti sem sagt ekkert í vinnu í síðustu viku nema þennan eina þriðjudag! Góður starfskraftur það! Er eiginlega búin að jafna mig núna... pínu slöpp en samt að ég held ekki með hita. En þessi leti vika fékk mig samt til þess að fara fljótlega að setjast í helgan stein... eða leggjast á helga steina eins og ég vil segja það...múhahaha

Í gær kom samt Tinna og við horfðum á LOTR Fellowship of the ring, hún hafði nefnilega aldrei séð hana... ég verð nú að bæta úr því svo hún fékk að sjá lengri útgáfuna! :) Og skemmti sér bara vel!
Jóna fór til Akureyrar um helgina svo við Óli ætluðum að hafa pizzuogvídjókvöld í gær. Þegar hann var að ná í pizzuna vaknaði Álfheiður og þegar ég fór inn í herbergi var hún búinn að æla út sig alla út. Greyið stelpan var komin með ælupest og er ennþá ælandi ef hún kemur e-u niður. Hræðilegt að sjá hana svona lasna - venjulega er hún nefnilega voða hress þegar hún er veik en ekki núna, nú vill hún bara kúra. Vonandi jafnar hún sig fljótt!

Jæja hetjurnar mínar! Nú er ég hætt og farin að fá mér pizzuafganga síðan í gær!!!
Megavika Domino´s lengi lifi!!! Húrra, Húrra, Húrra!!!

p.s. Gleðilegan helv, andsk. Valentínusardag! (Hver þarf á slíku að halda? huhh!)
p.s.s. Ef þið endilega viljið, megið þið senda mér blóm (og súkkulaði)! Munið að hafa kort með þar sem stendur:

Gleðinlegan Valentínusardag elsku Fanney mín.
Þú ert alltaf svo sæt!
Þinn leynilegi aðdáandi.
xxx

Hef aldrei fengið svona... humm... það hlýtur að vera af því að ég er alltaf að flytja... fólk veit ekki hvar ég bý hverju sinni! :)

Comments-[ comments.]

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

 
Kópasker City here I come!!!
Ég hlakka svo tiiil, ég hlakka alltaf svooo tiiil!
Já í dag pantaði ég mér far til Akureyrar! Fer á morgun kl 13:30 :) Ég fæ svo far með Ödda, bróður Þrastar og Svanfríði konunni hans til Kópaskers og þar á að skella sér á ærlegt íslenskt f***erí! Það er nefnilega Þorrablót! Reyndar borða ég nú ekki mikið af þessu þorramat, en kroppa a.m.k. í hangiketið, rófustöppuna og harðfiskinn... Svona er að vera vandlát... Ég reyndi eitt sinn að smakka hrútspung hjá pabba, minnir að ég hafi sett heilt stykki upp í mig... ég var fljót að skila því aftur! Ég get varla borðað sveppi og rækjur af því að mér finnst svo ógeðslegt að bíta í þær, hvað þá pung!
Hingað til hefur verið alveg rosalega gaman á þessum blótum, allir að dansa og drekka, sumir of mikið aðrir bara passlega...(og ekki er hljómsveitin af verri endanum, hið eina, sanna local band Legó! Þeir eru víst að gera allt vitlaust, farnir að spila á Akureyri og alles! Missti reyndar af þeim þar, enda ekki enn orðin 21, hefði samt kannski getað sagt, Nó, nó, ðiss iss ókei! æ nó ðe gæs hú ar pleying! En sleppti því vegna fyrri reynslu af slíku plotti...) Hugsið ykkur bara, allir að djamma saman, ungir sem aldnir! Mér finnst einmitt vanta svona böll hérna í borginni, svona stemmningu sem myndast til dæmis á gamla Pollinum, Græna hattinum og Oddvitanum á Akureyri, það er sko skemmtilegt að fara á svoleiðis djamm(!), fyrir utan feitu sveittu, sköllóttu kallana sem virðast stundum halda að þeir séu MUN yngri og flottari en þeir eru og algjörlega ómótstæðilegir... Skil ekki alveg hvort þeir haldi virkilega að svona gella eins og ég vilji ólm fara með þeim heim eða hvort þeir séu bara að reyna að hrella mann...

Þessi vika er annars búin að vera alveg rosalega fljót að líða. Reynar er Álfheiður enn lasin, ótrúlega hress samt miðað við c.a. 39 stiga hita stundum! Ótrúlega glaðlynt barn stúlkan sú! Kannski er ég bara svona ótrúlega fyndin en ég þarf varla að segja annað en "BÚ!" og þá fer hún að skellihlæja!
Já sei sei, ég fór í Kringluna í dag og það var svona líka rosalega gaman! Þar sannaðist að sjaldan er ein báran stök! Það virtist sem það væri MA bekkjarmót þarna sem ég vissi ekki af, því fyrst hitti ég Evu Lind og settist niður með henni og stráknum sem hún var að passa, hún er nefnilega að vinna á Lyngási, dagvistun fyrir fötluð börn og unglinga og hafði skellt sér í mollið ásamt einum drengnum. Ég hafði varla kvatt hana þegar ég heyrði nafn mitt kallað úr hæstu hæðum og þá voru Aðalbjörg og Hildur bekkjarsystur mínar úr 3. og 4. bekk í MA að snæða ís á stjörnutorgi svo ég ákvað að hlamma mér niður hjá þeim líka, loks kvaddi ég þær og hélt áfram, þá sá ég hvar Ölli sem var einmitt með mér í bekk í 1. bekk sat einn á bekk og þóttist tala í símann (hann átti samt ekki inneign og enginn hafði hringt í hann, hafði þó vit á því að setja símann á silent svo enginn myndi hringja óvænt í miðju samtali við ósýnilegan félaga). Ég ákvað að stoppa smá og spjalla enda hafði ég ekki hitt hann í háa herrans tíð! Til að toppa þetta ákvað ég að skella mér í Pennann og kíkja á Dundu sem var einmitt með mér í bekk í 4. bekk! Alveg ótrúlegt hvað heimurinn er lítill!

Ég ákvað áðan að setja skemmtilega reglu/leik... alltaf að skrifa e-ð skemmtilegt orðtak/málshátt í hverri færslu, reyni samt að setja það inn í textann! Sá sem finnur orðtakið/málsháttinn (og veit helst uppruna þess og merkingu), fær hrós frá mér. ;o) Ef e-r vinnur 5 sinnum í röð, fær hann kannski óvæntan glaðning!

Jæja þá var það ekki fleira sem mér lá á hjarta!
Hvað er annars að frétta af ykkur? Ertu búinn að borða e-ð Eiki minn?


Ekki má gleyma því að hún Sigga Magga systir mín er 31 árs í dag! Til hamingju með afmælið systir góð!
Mun ég varpa fram frumsaminni vísu að því tilefni, mér til gamans!

Sigga Magga systir mín
stór er orðin núna
Þetta yrkir Fanney þín
þokkalega lúna

Comments-[ comments.]

mánudagur, febrúar 02, 2004

 
Nú eru allir dagar Sjoppudagar...
Helgin var alveg rosalega róleg hjá mér... ég gerði eiginlega bara ekki neitt... Mín ætlaði þokkalega að fara að djamma á laugardagskvöldið með Evu Lind en hún beilaði og fór að vinna í staðinn... Kannski sem betur fer því ég var alveg dauð um miðnætti... Við Jóna og Óli höfðum það bara rólegt og horfðum á Finding Nemo (á skrifuðum disk sem er e-ð mjög bilaður og stoppaði örugglega 10x) og úðuðum í okkur flögum og ídýfu... Svo fór ég að hanga á netinu allt of lengi og svo bara í háttinn.
Sunnudagurinn var einnig mjög rólegur en þá fórum við Eva Lind og fengum okkur amerískan morgunverð með öllu tilheyrandi á Gráa Kettinum! Það var mjög fínt en ég myndi þó ekki fara þarna aftur því þetta er frekar dýr staður. EFtir að hafa gert "Trukknum" góð skil (það var heitið á máltíðinni, skil það reyndar ekki alveg því þetta var nú ekkert svo rosalega mikið, nema ég sé bara svona gráðug ;), fórum við að leigja okkur video. Við fórum fyrst og leigðum Magdalenes sisters, en þar sem The Pirates of the Caribbean var ekki inni á þeirru leigu og Evu langaði svo rosalega til að sjá hana, keyrðum við út um allt að leita að henni, enduðum með að panta hana... Þegar við vorum nýkomnar inn úr dyrunum heima hjá Evu hringdi videoleigan og tilkynnti að hún væri komin inn... alveg týpískt! En já við sem sagt horfðum á þær báðar og svo fór ég bara heim að sofa enda klukkan orðin 22:30...
Í dag var sem sagt Sjoppudagur hjá mér aftur því Álfheiður Una dóttir Jónu var veik og Jóna var því heima hjá henni; engin Jóna= Sjoppa ;) Fékk mér eina pYlsu með öllu og allt undir takk! Skil ekki þennan sið Reykvíkinga að vilja troða e-u ofan á pylsurnar sínar... mér finnst það bara verða subbulegt! En já, ég var sem sagt að vinna alveg ógeðslega lengi í dag, tæplega 12 tíma! Ekkert smá dugleg og alveg að verða búin að vinna mér inn fyrir kápunni sem ég ákvað að ég nennti ekkert að skila í dag... Svo nú á ég nýja kápu!
Get t.d. notað hana á þorrablóti á Kópaskeri um næstu helgi! Ef ég kemst þá þangað... Er ekki alveg að skilja þessi nettilboð hjá Flugfélagi Íslands... hver vill ferðast kl 07:45 á föstudagsmorgni? Huhh! Vona bara að ég geti hoppað!
Þá var það ekki fleira í þættinum að sinni, veriði sæt!


Comments-[ comments.]

Powered by Blogger